Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 562/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 562/2023

Miðvikudaginn 24. janúar 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 23. nóvember 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. október 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri meta henni örorkustyrk tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 9. september 2020. Með örorkumati, dags. 5. nóvember 2020, var umsókn kæranda synjað. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála og fékk kærumálið málsnúmerið 179/2021. Með úrskurði nefndarinnar, dags. 7. júlí 2021, var staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en fallist á að hún uppfyllti skilyrði 50% örorku. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. júlí 2021, var kæranda metinn örorkustyrkur með gildistíma frá 1. október 2020 til 30. september 2023. Kærandi sótti á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 14. september 2023. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. október 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að skilyrði staðals væru ekki uppfyllt. Kæranda var aftur á móti metinn örorkustyrkur með gildistíma frá 1. október 2023 til 30. september 2026.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 23. nóvember 2023. Með bréfi, dags. 29. nóvember 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. desember 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. desember 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hún hafi verið á 50% örorku síðastliðin tvö ár. Þá örorku hafi hún fengið í kjölfar kæru eftir að Tryggingastofnun hafi neitað henni um fulla örorku á sínum tíma þrátt fyrir að kærandi hafi verið búin að vera í mikilli endurhæfingu sem hafi ekki skilað árangri.

Kærandi hafi núna sótt um fulla örorku eftir enn meiri endurhæfingu sem hafi ekki skilað árangri til betra lífs. Fimm dögum eftir að læknisvottorð hafi borist Tryggingastofnun hafi stofnunin samþykkt 50% örorku.

Það sé mat kæranda að málið hafi ekki verið skoðað nægilega vel, þar sem líkamlegt og andlegt heilsufar hennar hafi farið versnandi að mati fagaðila, þrátt fyrir aukna endurhæfingu síðastliðin ár.

Í ljósi framangreinds sé óskað að þetta mál verði skoðað betur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla á umsókn um örorkulífeyri sem hafi verið synjað en örorkustyrkur hafi verið veittur. Stofnunin hafi komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðum fyrir greiðslum örorkulífeyris hafi ekki verið fullnægt og hafi umsókn kæranda því verið meðhöndluð sem umsókn um örorkustyrk.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilegum viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 við reglugerð um örorkumat nr. 379/1999 sem sett sé með skýrri lagastoð. Honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá 15 stig í líkamlega hlutanum eða 10 stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann hafi verið ákveðinn.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 27. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. 

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat sé heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, þ.e. utan örorkustaðals, ef tryggingayfirlæknir telji sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt í ljósi þess að 25. gr. laga um almannatryggingar mæli fyrir um staðlað mat og eins samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Í 45. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, um þau gögn sem þurfi að fylgja með umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri til Tryggingastofnunar með umsókn 14. september 2023 sem hafi verið synjað með bréfi, dags. 25. október 2023. Með vísan til læknisfræðilegra gagna hafi Tryggingastofnun komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðum fyrir greiðslu örorkulífeyris hafi ekki verið fullnægt og því hafi umsóknin verið meðhöndluð sem umsókn um örorkustyrk.

Í áðurnefndu bréfi Tryggingastofnunar hafi einnig komið fram að samkvæmt lögum um almannatryggingar eigi þeir sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar rétt á örorkulífeyri. Heimilt sé að greiða örorkustyrk þeim sem metnir séu til 50-74% örorku. Við mat á örorku sé byggt á örorkustaðli sem fylgi með reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Staðlinum sé ætlað að meta færni umsækjanda og séu bæði líkamlegir og andlegir þættir lagðir til grundvallar. Til að uppfylla skilyrði um örorkulífeyri þurfi umsækjandi að fá 15 stig samanlagt í mati á líkamlegri færniskerðingu eða 10 stig í mati er lúti að andlegri færni. Þó nægi að umsækjandi fái 6 stig í hvorum hluta fyrir sig til að uppfylla skilyrði um örorkulífeyri.

Við mat á örorku hjá kæranda hafi færni til almennra talin vera skert að hluta og því hafi örorkustyrkur verið ákvarðaður í stað örorkulífeyris. Við yfirferð umsóknar hafi gildistími örorkumats verið ákvarðaður frá 1. október 2023 til 30. september 2026. Við mat á örorku hafi legið fyrir umsókn, dags. 14. september 2023, og læknisvottorð, dags. 13. október 2023. 

Þess sé getið að kærandi hafi áður verið úrskurðaður með 50% örorkumat, með gildistíma frá 1. janúar 2020 til 30. september 2023, sbr. ákvörðun Tryggingastofnunar frá 9. júlí 2021 og úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 179/2021. Að auki hafi kærandi fengið endurhæfingarmat frá 1. október 2019 til 31. mars 2020 og frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorði, dags. 13. október 2023, og því sem kemur fram í svörum kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar.

Varðandi fyrra mat á örorkulífeyri hjá kæranda þá hafi á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis líkamleg færniskerðing verið metin til þriggja stiga samtals og varðandi andlega þáttinn þá hafi hann einnig verið metinn til þriggja stiga. Það nægi hins vegar ekki til þess að uppfylla þau skilyrði sem sett séu fram í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999. Hins vegar hafi skilyrði til greiðslu örorkustyrks verið talin vera fyrir hendi, sbr. ákvæði í 27. gr. laga um almannatryggingar en hann sé greiddur þeim einstaklingum sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Tryggingastofnun telji að þau vandamál sem kærandi eigi við að stríða í dag séu að mestu þau sömu og hafi komið fram í eldra læknisvottorði frá 11. september 2020 og einstökum þáttum færniskerðingar frá sama tíma. Með vísan til þess hafi áframhaldandi örorkustyrkur verið ákvarðaður til handa kæranda frá 1. október 2023 til 30. september 2026 þar sem ekki hafi komið fram þeim mun frekari versnun á heilsumati kæranda en frá því sem áður hafi verið.

Þau lagaskilyrði sem sett séu fram í lögum og reglugerðum fyrir greiðslum á örorkulífeyri hafi ekki verið talin hafa verið fyrir hendi, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat, og því hafi umsókn kæranda verið meðhöndluð sem umsókn um örorkustyrk. Bent skuli á það að umsækjendur um örorkulífeyri þurfi að uppfylla skilyrði örorkustaðalsins til að geta átt rétt til örorkulífeyris óháð því hvort þeir hafi verið metnir óvinnufærir eða ekki.

Að áliti Tryggingastofnunar hafi læknisfræðileg skilyrði til greiðslu örorkulífeyris verið metin réttilega með viðtali og skoðun og öðrum gögnum. Við endurmat á örorku hafi ekki verið forsendur til að bæta við stigum umfram það sem skýrsla skoðunarlæknis og önnur gögn hafi gefið tilefni til. Með vísan til alls framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að sú ákvörðun að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og ákvarða áframhaldandi greiðslu á örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 27. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar og því hafi áframhaldandi örorkustyrkur verið ákvarðaður í máli kæranda frá 1. október 2023 til 30. september 2026.

Með vísan til framangreinds telji Tryggingastofnun að synjun á örorkulífeyri hafi verið rétt og áframhaldandi greiðslur á örorkustyrk hafi verið ákvarðaðar í samræmi við lög um almannatryggingar.

V.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eru greiðslur örorkulífeyris bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 13. október 2023. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„LUMBAGO CHRONICA

LIÐVERKIR

KVÍÐI

OFFITA

FIBROMYALGIA“

Um fyrra heilsufar segir:

„Sjá fyrri umsóknir. X ára kvk sem hefur langa sögu um verki dreift í líkamanum. Einnig talsvert álag andlegt, bæði vegna kvíða en einnig vegna greininga barna og aðstoð til handa þeim.

Hefur reynt núna bæði Þraut og Reykjalund án teljandi árangurs. Áður reynt VIRK og Hreyfiseðil., og gegnum VIRK farið í starfsendurhæfingu C á sínum tíma, og ekki talið vænlegt til árangurs, nú síðast í greinargerð VIRKS fyrir 1,5 ári síðan.

Verið reynt ýmislegt með lyfjagjöf; aðalvandamál undanfarið hefur verið verkjavandamál, en gengið sæmilega á andlegu hliðinni að undanförnu. Hefur verið prófað með Gabapentin, Duloxetin, Amitryptiline, bólgueyðandi lyf og fleira, en án mikils árangurs.

Tekur núna einungis gabapentin fyrir svefninn af þessum lyfjum.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu nú segir:

„X ára kvk sem hefur langa sögu um verki dreift í líkamanum, ásamt mikilli og langvinni þreytu og einbeitingarleysi sem háir mikið. Einnig offita og verið á mörkunum hvað blóðsykur varðar.

Verst í höndum (fingur og úlnliðir), hnjám og utanverðum mjöðmum. Einnig talsvert álag andlegt, bæði vegna kvíða en einnig vegna […] og aðstoð til handa þeim. Metin af gigtarlækni sem taldi þetta vera fibromyalgiu frekar en sjálfsofnæmi.

Hefur reynt núna bæði Þraut og Reykjalund án teljandi árangurs. Áður reynt VIRK og Hreyfiseðil., og gegnum VIRK farið í starfsendurhæfingu C á sínum tíma, og ekki talið vænlegt til árangurs, nú síðast í greinargerð VIRKS fyrir 1,5 ári síðan.

Verið reynt ýmislegt með lyfjagjöf; aðalvandamál undanfarið hefur verið verkjavandamál, en gengið sæmilega á andlegu hliðinni að undanförnu. Hefur verið prófað með Gabapentin, Duloxetin, Amitryptiline, bólgueyðandi lyf og fleira, en án mikils árangurs.

Tekur núna einungis gabapentin fyrir svefninn af þessum lyfjum.“

Í lýsingu læknisskoðunar segir:

„Hendur; dreifðir verkir. Verst hér í dag yfir DIP-5, PIP4 og úlnlið ulnart hægra megin, er rétthent.

Bak; dreifðir verkir, verst yfir crista iliaca en einnig dreiðfir mildari verkir við létta palpation.

Ganglimir; verkir yfir sinafestum við trochanter beggja vegna. Verkir við flestar hreyfingar um hné, einna mest við álagsprófun lateralt (lateral collateral) en þetta nokkuð symmetriskt. Er í raun fyrst og fremst verkjalaus þegar álagsprófa fyrir meniscum.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi hafi verið óvinnufær frá 7. ágúst 2015 og að búast megi við að færni aukist með tímanum.

Einnig liggur fyrir læknisvottorð B, dags. 11. september 2020. Í lýsingu læknisskoðunar segir:

„Dreiðfir verkjapunktar, helst yfir stærri vöðvahópum en einnig kvartanir frá fingrum og tám - þetta var skoðað hjá gigtarlækni fyrir rúmu ári síðan og talið fyrst og fremst fibromyalgia, en endurmetist ef versni. Ekki verkir hér og nú í nárum, ekki merki um kviðslit við skoðun, en dreifðir verkir yfir quadriceps og kvið, án focal funda í kvið.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með vefjagigt, bak- og liðverki, grindargliðnun, offitu, kvíða, þunglyndi og áfallastreituröskun. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi erfitt með að sitja á stól þannig að hún eigi erfitt með að sitja vegna verkja í baki og mjaðmagrind. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að stundum sé það erfitt ef hún sitji lengi, hún fái verki í bak og mjaðmir. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa þannig að hún eigi það til að komast ekki upp aftur, við hreyfingar fái hún verki í bak og grind, það smelli í baki og mjaðmagrind. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að ef hún standi lengi fái hún verki í ökkla og hné, mjaðmagrind og bak, hún stífni og það smelli í grind. Kærandi svarar spurningu um það hvort að hún eigi í erfiðleikum með að ganga á jafnsléttu þannig að hún gangi frekar hægt, verði mjög fljótt verkjuð í mjöðmum og leggjum, hún hafi þurft að styðja sig við hækju vegna verkja í mjöðmum sem leiði upp bak og niður fótlegg. Kærandi svarar spurningu um að það hvort hún eigi erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig að hún verði mjög slæm eftir að ganga stiga, hana verki í fótum, grind og baki sem vari stundum í nokkra dag. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beita höndunum þannig að hún sé með verki í höndum, við notkun stirðni hún upp og bólgni mikið, hún geti ekki haldið á þungu og hana vanti orðið mikið upp á fínhreyfingar. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að hana verki í axlir, fingur og bak við teygja sig eftir hlutum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera hluti þannig að hendurnar gefi undan þegar hún haldi á þyngd og stundum bak og fætur. Hún fái mikla verki í hendur, mjaðmir og bak eftir að reyna við of mikla þyngd. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hana þannig að sjónin sé farin minnka, hún sé komin með gleraugu og einnig sé möguleg undirliggjandi gláka. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í talerfiðleikum þannig að oft rugli hún orðum og eigi það til að vera lengi að hugsa og koma frá sér orðum. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að stjórna hægðum þannig að hún hafi verið með linar hægðir síðastliðna sjö mánuði og þurfi alltaf að vera nálægt klósetti. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi við geðrænan vanda að stríða með því að nefna kvíða, þunglyndi, stress, frestunaráráttu, áfallastreituröskun og streitu.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 29. október 2020 í tengslum við fyrri umsókn kæranda um örorkumat. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir það svo að kærandi gæti ekki setið meira en tvær klukkustundir og að hún gæti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda taldi skoðunarlæknir að kærandi kviði því að sjúkleiki hennar versnaði, færi hún aftur að vinna. Skoðunarlæknir mat það svo að svefnvandamál hefðu áhrif á dagleg störf kæranda. Þá mat skoðunarlæknir það svo að kærandi gæti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarp. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis var líkamleg færni kæranda metin til þriggja stiga samtals samkvæmt staðli og andleg færniskerðing jafnframt metin til þriggja stiga samtals.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn.

Fyrir liggur að með úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í kærumáli nr. 179/2021 frá 7. júlí 2021 var farið ítarlega yfir skoðunarskýrsluna og taldi nefndin ekki tilefni til að gera athugasemdir við hana. Það var niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi fékk þrjú stig úr þeim hluta staðals sem varðaði líkamlega færni og þrjú stig úr andlega hlutanum þá uppfyllti hún ekki skilyrði 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat, en nefndin taldi þó að kærandi uppfyllti skilyrði um örorkustyrk.

Kærandi sótti um örorkulífeyri á ný með umsókn 14. september 2023 og læknisvottorði B, dags. 13. október 2023. Ljóst er að kærandi var ekki send í skoðun hjá skoðunarlækni áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af framangreindu læknisvottorði að versnun hafi orðið á heilsufari kæranda frá skoðun skoðunarlæknis 29. október 2020. Úrskurðarnefndin telur því hugsanlegt að kærandi uppfylli skilyrði örorkustaðals nú en nægjanlega upplýsingar liggja ekki fyrir til þess að meta færniskerðingu kæranda samkvæmt staðli, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 46. gr. laga um almannatryggingar. Úrskurðarnefndin telur því rétt að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar til nánari rannsóknar á færniskerðingu kæranda samkvæmt staðli.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. október 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri er felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum